Eftir rétt tæpar 3 vikur hérna í Buenos Aires er maður farinn að fá ágæta mynd af verðlaginu hérna. Svona almennt séð held ég að það sé hægt að deila með tveimur í það verð sem maður er að borga á Íslandi fyrir vörur og þjónustu, með nokkrum undantekningum þó. Innfluttar tískuvörur eru nú bara á svipuðu verði og heima, allavega eftir lækkun krónunnar síðustu daga. En kjötið og bjórinn er nú ennþá töluvert ódýrari og því hagar maður innkaupunum að sjálfsögðu í samræmi við það.
Þó svo að flestar vörur séu nú verðmerktar og erfitt sé að rukka útlendinga um hærra verð þá virðist það vera svolítið innprentað í landann hérna að reyna að smyrja duglega á verðin þegar ríku útlendingarnir eru að versla. Sem dæmi hefur flugfélagið hérna Aerolíneas Argentinas verið ásakað um að rukka meira fyrir flugmiða þegar erlendir aðilar kaupa miða og hafa menn jafnvel fundið mismunandi verð eftir því hvort heimasíða þeirra sé skoðuð á spænsku frekar en ensku. Einnig var verið að bjóða okkur skúringakonu hérna á þrefalt hærra verði en gengur og gerist, svo ég minnist ekki á helv. leigubílstjóran sem sótti mig á flugvöllinn, en fjölskyldan hans hefur sennilega átt það ansi náðugt síðustu vikur!
Maður verður því að hafa varann á hérna og athuga vel hvað maður er að kaupa því það virðist vera lenska hérna að fegra hluti, yfirselja og yfirrukka í samræmi við það. Ótrúlegasta dæmið er sennilega hvernig ríkið kokkar verðbólgutölurnar til að framkalla þá ímynd að hagkerfið sé í góðum málum. Þegar verðbólgan í Argentínu fór yfir 16% árið 2006 ákvað þáverandi forsetinn (eiginmaður Kristínu Kirschner, núverandi forseta) að nóg væri komið. Með efnahagskrísuna 2001 í fersku minni var ákveðið að breyta um reikniaðferðir við útreikning verðbólgunnar. Hún lækkaði skyndilega og hefur verið um 6% - 8% síðustu 2 ár. Óháðir aðilar hafa þó reiknað út að raunveruleg verðbólga muni verða um 25% - 30% hérna á þessu ári. Í fljótu bragði virðist þetta vera hin sæmilegasta lausn og hefur reyndar virkað ágætlega síðustu 2 árin. En þetta fyrirkomulag er að koma ansi hart í bakið á efnahaginum hérna. Erlendir sem og innlendir fjárfestar eru að átta sig á raunverulegu ástandi, sem endurspeglast í hækkandi lánskjörum sem verið er að bjóða. Ekki er einfalt að snúa þessu við vegna þess að með því að breyta fyrirkomulaginu aftur og viðurkenna hið augljósa getur ríkið verið að skapa sér himináar bótakröfur til lánadrottna vegna misvísnadi upplýsinga.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þetta fer, en hvernig sem það verður þá mun það koma illa við efnahagsumhverfið hérna. Í samanburði við Ísland þá held ég að við gætum nú verið töluvert verr stödd heima á skerinu og þó svo að vorið sé að koma hérna í Argentínu þá er það einungis grasið sem verður grænna hérnamegin á hnettinum næstu mánuðina.
Flokkur: Ferðalög | 9.9.2008 | 23:40 (breytt kl. 23:47) | Facebook
Athugasemdir
Geturðu ekki þóst vera innfæddur, bara svolítið þroskaheftur
Ekki fara þeir að snuða öryrkja.....
Hafðu það gott.
Tinna, 16.9.2008 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.