Allir kappklæddir

Ég tók minn fyrsta göngutúr í dag um borgina og reyndi mitt besta að líta ekki út fyrir að vera túristi svo ég yrði nú ekki rukkaður tvöfalt fyrir bjórinn eða eitthvað þaðanaf verra. Fljótlega eftir að ég lagði af stað áttaði ég mig á því hversu langt ég átti í land með að selja mig sem einhvern lókal. Í fyrsta lagi þá sá ég ekki ljóshærðan karlmann fyrr en eftir um klukkutíma gang. Í öðru lagi þá eru flestallir, ólíkt mér, kappklæddir hérna og í þriðja lagi var ég auðvitað dæmdur til að koma upp um mig þegar ég opnaði munninn, enda réttsvo mellufær í spænskunni. Að sjálfsögðu endaði ég með því að borga fullt verð fyrir bjórinn og taka nokkra skemmtilega langar leigubílaferðir um borgina!

En það er alveg frábært að sjá andstæðurnar hérna við gamla góða Íslandið. Maður fer úr sumarblíðunni heima, sextán stiga hita og heiðskýru stuttbuxnaveðri þarsem menn eru að sóla sig í laugunum. Næsta dag er maður mættur yfir í sextán stiga miðsvetrarkuldakast þarsem menn eru kappklæddir með trefla og öllu tilheyrandi, eru jafnvel með hundana í svona búningum til að verja þá fyrir kuldabola. Gróðurinn er síðan mestallur í vetrardvala og varla laufblað að finna á trjánnum sem bætir enn á vetrarfílinginn. Allt virðist þetta valda einhverri árstíðartilvistarkreppu... er sumar eða er vetur? ég satt best að segja er ekki búinn að átta mig alveg á því ennþá, en ég skal láta ykkur vita um leið og þetta skýrist.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

lekki séð jóshærðan karlmann hehehe, hvenær varst þú flokkaður sem slíkur??? ...hlakka til að fylgjast með þér í þessu

k

krk (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 07:36

2 identicon

Gaman verður að fylgjast með þér á bloggsíðuni þinni   gangi þér vel í  Buenos Aires.

Kv. Inga

Inga frænka (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband